Nú er lag að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt

Mikil þörf er á því að efla skapandi hæfni og getu til að framkvæma nýjar hugmyndir og lausnir, hvort heldur fyrir samfélag eða það atvinnulíf, sem hvert samfélag byggir tilveru sína á. Atvinnulífið kallar eftir samstarfi við skólakerfið og flestir viðurkenna þörfina fyrir aukna nýsköpun, græna nýsköpun og færni til að bregðast við breytingum. Samstarf við nærsamfélag og atvinnulíf er einn af áhersluþáttum nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar og má í því sjá tækifæri til að efla tengsl skóla og atvinnulífs. Þörf atvinnulífsins fyrir fólk með verk- og tæknimenntun er enn fremur einn af þeim þáttum, sem efla mætti með nýsköpunar- og frumkvöðlamenntun og byggði á tæknilæsi og sköpunarfærni á sviði tækni og vísinda. Atvinnuauglýsingar gefa til kynna þörf atvinnulífsins fyrir fólk með hæfni og færni sem leitast er við að efla með nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Nýsköpunarmennt

Þetta eru m.a. niðurstöður dr. Svanborgar R. Jónsdóttur, lektors á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, sem unnið hefur skýrslu um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar á framhaldsskólastigi á Íslandi og mat á þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir fólk með slíka menntun.  Skýrslan er hluti af verkefni um eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar (NFM) á framhaldsskólastigi.  Verkefnið er unnið í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.  Samstarfsaðilar í verkefninu eru Menntavísindasvið HÍ, Félag íslenskra framhaldsskóla og Félag íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Í skýrslunni er leitað svara við því hvernig núverandi staða er í menntun á þessu sviði í íslenskum framhaldsskólum og lagt mat á þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir hæfni, sem þjálfuð er á þessu sviði. Greint er frá niðurstöðum könnunar, sem send var til stjórnenda framhaldsskóla og kynnt greining á þörf vinnumarkaðar fyrir fólk, sem hefur tileinkað sér nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Stjórnendur vel með á nótunum

Niðurstaða könnunar, sem send var til skólastjórnenda allra framhaldsskóla á Íslandi, sýnir að nú er lag til að efla nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á Íslandi.  Könnunin sýnir að stjórnendur eru flestir vel með á nótunum um hvað nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (NFM) snýst og þeir sjá þar ýmis tækifæri til að efla nemendur sem einstaklinga og tengsl þeirra við atvinnulíf og samfélag. Enn fremur skapar ný námskrá framhaldsskóla gott rými og tækifæri til að breyta námsframboði og bjóða upp á nám, sem hentar hverjum skóla og hverju samfélagi og fellur að þeirri grunnhugsun sem menntastefnan frá 2011 boðar.  

Menntun kennara nauðsynleg

Allnokkrir skólar eru farnir af stað í þróunarvinnu á þessu sviði og margir stjórnendur eru með fjölbreyttar hugmyndir um hvernig mætti hagnýta nám í NFM á mismunandi hátt og tengja til dæmis listgreinum, atvinnulífi eða sérstöðu skóla. Alls 30 af 32 stjórnendunum telja að þörf sé á menntun kennaranema og endurmenntun starfandi kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og sami fjöldi lýsti áhuga sínum á að taka þátt í þróunarverkefni um að efla námssviðið. Flestir vilja að endurmenntun starfandi kennara fari fram í viðkomandi skóla eða svæði og gjarnan í samstarfi fleiri skóla og að teymi eða allir kennarar skólans taki þátt í slíkum námskeiðum. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi þess að nýjungar séu ekki á borði einstakra kennara heldur byggðar upp í samstarfi hóps kennara til að þær nái fótfestu og varanleika í skólum.

Nýsköpunarfærni og framtakssemi

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt (NFM) er hugtak yfir menntun, sem ætlað er að efla nýsköpunarfærni og framtakssemi þeirra, sem slíkrar menntunar njóta. Einn vandinn við að skoða og skilgreina nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sem ákveðið námssvið eða námsgrein er hversu víð og yfirgripsmikil slík menntun er og skilgreiningar teygjanlegar. NFM getur t.d. snúist um að efla trú á eigin getu með því að fá þjálfun í að bregðast við þörfum á skapandi hátt: um hagnýtingu mannsins á náttúru, um tækni og vísindi, um umhverfismál, um viðskipti, en einnig um félagsleg samskipti og hvaðeina sem felur í sér að finna nýjar lausnir og framkvæma þær. Á Íslandi hefur þróast sýn á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sem leggur áherslu á að (ný)sköpun sé alltaf drjúgur hluti af slíkri menntun og sömuleiðis framkvæmdasemi sem litið er á sem tvær hliðar á sama peningi.

Byggir á eflandi kennslufræði

Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt byggir á kennslufræði, sem greind hefur verið sem eflandi kennslufræði. Slík kennslufræði byggir á þeirri megin áherslu að nemendur hafi ríkuleg tækifæri til að stýra námi sínu, velja viðfangsefni, hugmyndir, aðferðir og útfærslur í verkefnum sínum. Þar skarast gjarnan hlutverk kennara og nemenda þar sem nemendur í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt eru álitnir sérfræðingar í sínum eigin hugmyndum en ekki kennarinn. Framsækin kennslufræði er oft sá grunnur sem kennarar byggja á þegar þeir feta fyrstu sporin yfir í eflandi kennslufræði, en sú kennslufræði sem flokkast sem hefðbundin kennslufræði og á sér lengsta sögu er stýrandi kennslufræði.

Nemendur efldir til frumkvæðis

Aðal kostir frumkvöðlamenntar voru framan af taldir felast í að efla nemendur til frumkvæðis til að stofna fyrirtæki og gera þau lífvænleg og þannig leggja sitt af mörkum til að bæta og efla atvinnu- og efnahagslíf.  Á síðari árum hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á að frumkvöðlamennt hafi víðtækari og almennari áhrif svo sem að auka færni til sköpunar og nýsköpunar og með því að efla sjálfstæði, sjálfstraust og aðlögunarhæfni nemenda og styrkja þá þannig til virkrar þátttöku í samfélagi sínu.

Áhersla nálægra landa á NFM

Áherslu á nýsköpunar- og frumkvöðlahæfni má finna í menntastefnum nálægra þjóða og hjá alþjóðasamtökum á sviði menntunar.  Þannig hefur Norræna ráðherranefndin mótað stefnu um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt á öllum skólastigum og innan fullorðinsfræðslunnar sem Íslendingar eru aðilar að. Þá hefur Evrópusambandið mótað almenna stefnu um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt og mikið þróunarstarf hefur átt sér stað innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um menntun í nýsköpun.

Efling nýsköpunar- og frumkvöðlamennta í íslensku skólakerfi er svar við áherslum og ákalli samfélagsins um nýsköpunarfærni og framkvæmdasemi.  Í Sóknaráætlun 2020 kemur fram að leggja þurfi áherslu á nýsköpun á öllum skólastigum með markvissri þjálfun listrænnar og hagnýtrar sköpunar. Samþætting nýsköpunar við allt nám er þar lykilsetning og menntun kennara talin mikilvæg, sérstaklega þverfagleg menntun og skilningur á fjölþættari fræðasviðum en þeir hafi nú. Leitast þurfi við að tengja skólastarf við nýsköpun, koma á fót tæknimiðstöð, sem vekja myndi athygli og áhuga ungmenna á raungreinum og örva nýsköpun í samstarfi við atvinnulífið allt. Einnig kemur fram í Sóknaráætlun að tímabært sé að opinberir aðilar á öllum sviðum þjónustu og rekstrar marki sér stefnu í nýsköpun.

Við mótun atvinnustefnu á vegum stjórnvalda hér á landi er lögð áhersla á nýsköpun og þátt menntunar í eflingu hennar. Samtök á vinnumarkaði leggja áherslu á styrkari starfsmenntun og að komið verði til móts við þarfir vinnumarkaðarins fyrir menntað starfsfólk, sérstaklega á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar sem og verk- og tæknimenntunar. Þannig verði stuðlað að aukinni framleiðni og verðmætasköpun á Íslandi.

Ný lög og aðalnámskrá styðja NFM

Á árunum 2006-2010 voru sett lög um leikskóla-, grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólastig, kennaramenntun og framhaldsfræðslu. Þessir lagabálkar samanlagt mynda grunninn að ævinámsstefnu stjórnvalda á Íslandi og almenna umgjörð um nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í öllu skólakerfinu. Ný aðalnámskrá, almennur hluti, fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla var samþykktur í maí 2011. Sú menntastefna, sem birtist í aðalnámskrá allra skólastiga, byggir á sex grunnþáttum menntunar sem eiga að vera leiðarljós í skólastarfi. Einn þessara grunnþátta er sköpun, sem hlýtur að teljast lykilþáttur í allri nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Ennfremur má nefna að hinir fimm grunnþættirnir geta skarast og undirbyggt vinnu í NFM að verulegu leyti: Læsi, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sjálfbærni. Læsi á tækni og samfélag, samstarf og geta til að bregðast við margs konar þörfum og vandamálum, félagslegum og umhverfislegum, eru gjarna ríkur þáttur í NFM verkefnum. Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt felur í sér áherslur, nálgun og ramma sem fellur vel að þeirri hugsun og grunnþáttum sem nýja námskráin leggur áherslu á meðeflandi kennslufræðisem ýtir undir hæfni nemenda til sköpunar, nýsköpunar og aðgerða.

Aðgerðaáætlun í undirbúningi

Mikilvægt er fyrir samfélagið að menntastefna og atvinnustefna séu í samræmi og unnar í víðtæku samstarfi, að mati skýrsluhöfundar. Verkefninu er ætlað að auka áhuga, bæta árangur og fjölbreytni námstækifæra gegnum námsreynslu í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Með eflingu NFM verði stuðlað að því að brúa bilið milli núverandi stöðu og framtíðarþarfa nemenda og samfélagsins með virkri og ábyrgri þátttöku í skólastarfinu og á vinnumarkaði.

Fyrsta formlega skrefið í verkefninu, sem hrint var úr vör í ársbyrjun 2013, var að leita svara við því hver núverandi staða er í frumkvöðlamennt í íslenskum framhaldsskólum og meta þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir menntað fólk á þessu sviði. Yfirskrift skýrslunnar er „Staða nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar á framhaldsskólastigi á Íslandi og mat á þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir fólk með slíka menntun“. Samhliða var unnin önnur skýrsla, sem felur í sér greiningu á stefnu þeirra landa, sem standa fremst í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt, uppbyggingu og framkvæmd náms á þessu sviði og ráðleggingum alþjóðastofnana (svo sem OECD). Horft var sérstaklega til Noregs, Danmerkur og Wales sem fyrirmynda. Á grundvelli beggja skýrslna verður unnin áætlun um aðgerðir sem eiga að vera til þess fallnar að efla íslenska framhaldsskóla til að auka hæfni nemenda sinna í nýsköpunar- og frumkvöðlafærni.  Dæmi um æskilegt úrræði samfara mótun NFM-stefnu gæti verið þróun námskeiðs í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt fyrir kennaranema og starfandi kennara. Enn fremur gætu úrræði falist í drögum að námskrám fyrir sérnám í NFM sem nýta mætti sem aðalval til stúdentsprófs, grunnáfanga á öllum brautum eða sem valgrein á öllum brautum framhaldsskóla og á mismunandi hæfniþrepum.

Stjórnendur leiðandi lykilaðilar

Samfara nýjungum í skólastarfi á borð við NFM þarf að efla stuðningskerfi og jákvæð viðhorf bæði innan skólanna og í samfélaginu svo að nýjungarnar fylgi ekki bara einstökum kennurum og hverfi á braut með þeim. Mikilvægt er að það sé teymi kennara eða nokkrir saman í starfsliði skólanna sem vinni að þróun nýjunga. Einnig skiptir viðhorf stjórnenda miklu um hvaða brautargengi nýjungarnar fá og því er mikilvægt að þeir séu með að einhverju marki í þróunarvinnu af þessu tagi. Nýjungar þurfa að verða hluti af menningu skóla ef þær eiga að verða eitthvað meira en yfirborðskennd tilraun og þar er skólastjórnandinn leiðandi lykilaðili. Skipulag náms af því tagi sem NFM krefst er oft þannig að það þarf samfelldan og drjúgan tíma til vinnunnar auk svigrúms til að geta yfirstigið hefðbundna aðgreiningu skóla og samfélags með því að skólinn heimsæki atvinnulífið og atvinnulífið heimsæki skólann. Þar koma stjórnendur mikið við sögu.

Ráðstefna fyrirhuguð í haust

Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Félag íslenskra kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt ráðgera að halda ráðstefnu um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntamála á Íslandi nú á haustmánuðum fyrir hagsmunaaðila þar sem skýrslurnar tvær verða m.a. kynntar og hugmyndir um næstu skref reifaðar. Ráðstefnan verður auglýst síðar.

Nánari upplýsingar veitir Jóhanna Ingvarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð.

Hægt er að nálgast umræddar skýrslur hér: